top of page
Search

Bóluefni gegn árlegri inflúensu er nú komið til landsins og verður tilbúið til afhendingar hjá Parlogis ehf. frá og með 16.9.2019.

Í ár, eins og fyrri ár, verður notað bóluefnið Influvac sem inniheldur vörn gegn inflúensu A(H1N1), A(H3N2) og inflúensu B.

Sóttvarnalæknir mælist til að eftirtaldir áhættuhópar njóti forgangs við inflúensubólusetningu:


  • Allir einstaklingar 60 ára og eldri.

  • Öll börn og fullorðnir sem þjást af langvinnum hjarta-, lungna-, nýrna- og lifrarsjúkdómum, sykursýki, illkynja sjúkdómum og öðrum ónæmisbælandi sjúkdómum.

  • Heilbrigðisstarfsmenn sem annast einstaklinga í áhættuhópum sem taldir eru upp hér að ofan.

  • Þungaðar konur.


Vakin er athygli á því að ofangreindir áhættuhópar eiga rétt á bóluefninu sér að kostnaðarlausu.

Um 70.000 skammtar af bóluefninu eru tilbúnir til afhendingar sem er svipað magn og var til ráðstöfunar á síðasta vetri. Dreifing bóluefnisins er ákvörðuð af sóttvarnalækni og miðast við dreifingu vetrarins 2018/2019 þar sem áhersla var lögð á bólusetningu áhættuhópa.

Almenn bólusetning er í höndum heilsugæslunnar en auk þess er bólusett á sjúkrastofnunum og ýmis fyrirtæki og læknar hafa tekið að sér bólusetningu almennings og starfsmanna.

Þessir aðilar munu á næstunni auglýsa hvernig bólusetningunni verður háttað en yfirleitt er byrjað að bólusetja í október.

Eins og undanfarin ár er ekki nákvæmlega vitað á þessari stundu hvaða tegund inflúensu mun herja á landsmenn veturinn 2019 til 2020. Inflúensan er enn ekki farin að láta á sér kræla hér á landi en ávallt má búast við henni í kringum áramótin.

Bólusetning gegn inflúensu veitir yfirleitt allt að 60–70% vörn gegn sjúkdómnum en jafnvel þótt bólusettur einstaklingur fái inflúensu eru allar líkur á því að sjúkdómurinn verði vægari en ef hann væri óbólusettur.


Greinin er fengin frá heimasíðu Embætti Landlæknis

Oft getur reynst erfitt að átta sig á muninum á lyfi, náttúrulyfi og náttúruvöru enda mikill hluti lyfja frá náttúrunni kominn. Talið er að að minnsta kosti þriðjungur hefðbundinna lyfja á markaði eigi fyrirmynd sína að rekja til efna sem finnast í náttúrunni. Best er að lýsa þessum mun út frá framleiðsluferlinu og öryggi lyfjanna.


Hefðbundin lyf sem læknir ávísar innihalda einungis tiltekin efni og hafa skilgreint innihald. Á þeim hafa verið gerðar fjölmargar rannsóknir og sýnt fram á að lyfið virki við ákveðnum sjúkdómum og séu örugg í venjulegum skömmtum. Vitað er nákvæmlega hversu mikið af efninu er í lyfinu, hverjar helstu aukaverkanir og milliverkanir eru og í hvaða aðstæðum megi alls ekki nota lyfið. Framleiðslan er undir ströngu gæðaeftirliti og lyfið er skráð hjá Lyfjastofnun sem hefur eftirlit með gæðum þess.


Náttúrulyf í tveimur flokkum

Náttúrulyf eru unnin á einfaldan hátt (t.d. með þurrkun, mölun, úthlutun, pressun) úr jurtum, dýrum, örverum, steinefnum eða söltum og þau innihalda oft fleiri en eitt efni. Náttúrulyf mega eingöngu vera ætluð til inntöku, samanber töflur, eða staðbundinnar notkunar á húð eins og krem eða smyrsli. Skammtastærðirnar eru staðlaðar, innihaldið er þekkt og sýna þarf fram á að framleiðslan uppfylli gæðakröfur.

Líkt og með lyf þá eru aukaverkanir skráðar. Hægt er að skipta náttúrulyfjum í tvo flokka. Annaðhvort þarf að sýna fram á að lyfið virki gegn ákveðnum sjúkdómi til að mega kallast náttúrulyf. Ekkert slíkt lyf er nú skráð á Íslandi. Hitt er að söguleg hefð sé fyrir notkun lyfsins. Þá hefur náttúrulyfið verið notað það lengi að talið er að það sé öruggt til notkunar. Þrjú slík náttúrulyf eru skráð á Íslandi, öll jurtalyf, og heita Glitinum, Lyngonia og Harpatinum. Eftirlit með þeim er í höndum Lyfjastofnunar.


Flóknar efnablöndur

Náttúruvörur eru oft flóknar efnablöndur. Þær flokkast með fæðubótarefnum. Náttúruvörur geta innihaldið náttúruefni og önnur efni eins og vítamín, steinefni og amínósýrur. Eins og á við um náttúrulyf þá er framleiðslan einföld. Innihaldið er hins vegar ekki þekkt og því ekki vitað almennilega hvað er í vörunni eða í hversu miklu magni. Engar kröfur eru gerðar um rannsóknir eða að sýnt sé fram á að efnið virki við ákveðnum einkennum, sé öruggt né að framleiðslugæðin séu tryggð. Allri ábyrgð er varpað yfir á neytendur. Eftirlitið er í höndum Matvælastofnunar en ekki Lyfjastofnunar líkt og með náttúrulyf og lyf.


Inntöku hætt við aukaverkanir

Náttúrulyf og -vörur geta haft áhrif á verkun lyfja. Þeir sem taka lyf ættu því að varast notkun þeirra, sérstaklega þegar um náttúruvöru er að ræða. Ástæðan er sú að ekki er alltaf vitað hvaða efni eru í vörunni eða í hversu miklu magni. Gögn um öryggi náttúruvara liggja því ekki fyrir og áhættan við notkun getur oft vegið meira en hugsanlegur ávinningur. Þungaðar konur, börn, aldraðir og einstaklingar á lyfjum ættu að forðast notkun náttúruvara. Ef einhverjar aukaverkanir koma fram líkt og kláði, útbrot, magaóþægindi eða höfuðverkur skal hætta inntöku strax. Ef einkennin eru mikil eða langvarandi skal hafa samband við lækni eða lyfjafræðing. Nánari upplýsingar er hægt að finna inni á heilsuvera.is

Undanfarin misseri hefur oft verið minnst í fjölmiðlum á þá ógn sem stafar af bakteríum sem sýklalyf bíta ekki á. Bent hefur verið á að óskynsamleg notkun sýklalyfja sé ein meginástæða fjölgunar þessara baktería. Sýkingum af völdum slíkra baktería hefur fjölgað ört undanfarin ár í heiminum og í Evrópu og Bandaríkjunum einum saman deyja nú árlega ríflega hundrað þúsund manns af þeim sökum.

Vinna eingöngu á bakteríum 

Til að stemma stigu við þessari ógnvænlegu þróun er afar mikilvægt að almenningur og heilbrigðisstarfsfólk taki höndum saman við að stuðla að skynsamlegri notkun sýklalyfja. Því er ekki úr vegi, nú þegar kvefpestirnar fara að banka á dyrnar hjá okkur, að staldra aðeins við og velta fyrir sér hvenær eigi ekki að grípa til sýklalyfja.


Langstærstur hluti loftvegasýkinga sem herja á landann, eins og kvef, hálsbólgur, berkjubólgur og ennis- og kinnholubólgur sem dæmi, eru af völdum sýkils sem kallast veirur. Hefðbundin sýklalyf gera ekkert gagn þegar um veirusýkingar er að ræða enda vinna þau eingöngu á bakteríum. Meðferð við veirusýkingum er fyrst og fremst fólgin í því að fara vel með sig á meðan líkaminn læknar sig sjálfur. Holl ráð um hvað maður getur gert sjálfur til að bæta líðan meðan veikindin ganga yfir er að finna á upplýsingavefnum www.heilsuvera.is.


Einnig er mikilvægt að átta sig á því að einkenni veirusýkingar geta varað allt frá örfáum dögum upp í margar vikur og getur vægt kvef verið dæmi um veirusýkingu sem gengur hratt yfir en berkjubólga dæmi um veirusýkingu sem oft getur tekið jafnvel sex vikur að verða góður af.


Síðastliðin ár hefur verið markvisst unnið að því innan heilsugæslunnar að stuðla að skynsamlegri ávísun sýklalyfja. Þetta starf hefur skilað umtalsverðum árangri og á þeim stöðvum þar sem hvað mest vinna hefur verið lögð í þetta hefur notkun ákveðinna breiðvirkra sýklalyfja dregist saman um allt að 70% árið 2018 miðað við árið 2016.


Við Íslendingar eigum þó enn langt í land með að ná þeim skynsamlegu markmiðum sem nágrannaþjóðir okkar hafa sett sér varðandi ávísanir sýklalyfja. Árangur þeirra er okkur innblástur að halda áfram á þeirri vegferð sem við erum á enda hlýtur markmið okkar að vera að nota þetta mikilvæga lækningatæki skynsamlega og rétt. Annars er hættan sú að komandi kynslóðir sitji eftir með sárt ennið, varnarlausar gagnvart algengum bakteríusýkingum eins og lungnabólgum og húðsýkingum sem fyrr á öldum voru dauðadómur og eiga á hættu að verða það aftur. 


Holl heimaráð

Vonandi er þér ljóst, lesandi góður, að í langsamlega flestum tilvikum þarf ekki og á ekki að notast viðsýklalyf við kvefpestum. Hægt er að mæla með hvíld og hollum heimaráðum á heilsuvera.is Þó er gott að hafa í huga eftirfarandi þumalputtareglu: ef einkenni versna skyndilega mikið þegar þau hafa verið skánandi er skynsamlegt að leita til heilsugæslunnar að fá mat á stöðunni og ráðleggingar, eins og við á hverju sinni.


Grein er fengin frá heimasíðu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og birtist fyrst í Morgunblaðinu.

181009+PharmaSýn+merki+CMYK-prent+(2)-0
Skráðu þig á póstlistann okkar

Takk fyrir að skrá þig!

© 2020 PharmaSýn

bottom of page