top of page
Search

Regluleg skimun fyrir leghálskrabbameini getur komið í veg fyrir rúmlega 90% tilfella sjúkdómsins. Ein aðalforsenda þess að koma megi í veg fyrir leghálskrabbamein er reglubundin þátttaka í skimun fyrir sjúkdómnum ásamt þátttöku stúlkna í HPVbólusetningum sem öllum stúlkum í 7. bekk stendur til boða. Talið er að bólusetningin veiti 70% vörn gegn leghálskrabbameini. 


Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur gefið út að æskileg þátttaka kvenna í skimuninni sé 85% en hér á landi er þátttakan aðeins 67%, sem er undir öllum viðmiðunarmörkum. 


Nýgengi hefur aukist 

Fjöldi kvenna sem greinast með leghálskrabbamein árlega (nýgengi) hefur fjölgað undanfarin ár og konur greinast einnig yngri og með alvarlegra stig sjúkdómsins. Leghálskrabbamein er lýðheilsuvandamál á Íslandi samkvæmt skilgreiningu Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar en nýgengi þess er rúmlega helmingi hærra en viðmið Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar eða tæplega níu tilfelli á hverjar100.000 konur. 

Fjöldi kvenna sem deyja úr leghálskrabbameini árlega hér á landi (dánartíðni) hefur aukist um 50% sl. 10 ár. Bandaríska sóttvarnarstofnunin (CDC) hefur gefið út að engin kona eigi að þurfa að deyja úr leghálskrabbameini. 


Innviðir og þekking til staðar 

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að fela heilsugæslunni framkvæmd skimunar fyrir leghálskrabbameini. Skimunin er forvörn sem fellur vel að starfsemi heilsugæslunnar líkt og ungbarna- og mæðravernd og bólusetningar. Allir innviðir og þekking eru til staðar. Haldist framlag Alþingis til skimunar óbreytt ætti að vera hægt að bjóða skimun fyrir leghálskrabbameini gjaldfrjálst á vegum heilsugæslunnar. Það er markmið heilsugæslunnar að þátttaka í skimun og nýgengi leghálskrabbameins verði í samræmi við markmið Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar og þannig fækki þeim konum sem greinsast og deyja af völdum leghálskrabbameins hér á landi. 


Ný rannsóknaraðferð verði tekin upp 

Í Svíþjóð, þar sem þátttaka í skimun fyrir leghálskrabbameini er hæst í heiminum, er hún gjaldfrjáls og á vegum heilsugæslustöðva þar sem sýnin eru tekin af ljósmæðrum. Hér á landi er góð reynsla af því að ljósmæður taki frumusýni frá leghálsi og þegar skimun fyrir leghálskrabbameini var færð til heilsugæslustöðva á landsbyggðinni fyrir nokkrum árum voru dæmi þess að þátttaka ykist yfir 20% á sumum stöðum. Heilsugæslan mun einnig styðja það að tekin verði upp ný rannsóknaraðferð við skimun fyrir leghálskrabbamein, eða svokölluð HPV-frumskimun. Næmi hennar til að greina frumubreytingar er um 95% en næmi hefðbundinnar frumuskoðunar er aðeins um 50%. HPV-frumskimun lækkar einnig dánartíðni af völdum leghálskrabbameins og fækkar alvarlegri frumubreytingum. Upptaka HPV frumskimunar er því brýnt gæðamál sem heilsugæslan horfir til að tekin verði upp hér á landi. 


Gagnreynd vísindaþekking 

Heilsugæslan verður vel undir það búin að taka að sér framkvæmd skimunar fyrir leghálskrabbameini samkvæmt ákvörðun heilbrigðisyfirvalda og mun leggja höfuðáherslu á aukna þátttöku með auknu aðgengi að skimun, faglegri þekkingu, betri skimunaraðferð, viðeigandi og siðferðilegum upplýsingum byggðum á gagnreyndri vísindaþekkingu með heilsufarslega hagsmuni kvenna í forgrunni. 

Þótt miðað sé við að heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu taki ekki formlega við framkvæmd skimunar fyrir leghálskrabbameini af Krabbameinsfélagi Íslands fyrr en 1. janúar 2021 hafa margar heilsugæslustöðvar boðið upp á þessa þjónustu í fjölda ára. 

Á þjónustuvefsjá á heilsuvera.is má sjá hvernig krabbameinsleit er háttað á öllum heilsugæslustöðvum landsins. 


Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu

Norðurlandaþjóðirnar telja mikinn ávinning í því að innleiða rafræna fylgiseðla með lyfjum og vinna að því sameiginlega gagnvart Evrópusambandinu. Horft er til þess að rafrænir fylgiseðlar verði mikilvægur liður í því að sporna við lyfjaskorti og auka öryggi sjúklinga. Um þetta var fjallað á fjölmennum fundi íslenskra og erlendra sérfræðinga í Reykjavík í gær sem haldinn var í tengslum við formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni

.

Innleiðing rafrænna fylgiseðla með lyfjum er eitt af forgangsmálum ríkisstjórnarinnar og einnig eitt af markmiðum ályktunar Alþingis um lyfjastefnu til ársins 2020. Undir forystu Íslands náðist samstaða meðal allra Norðurlandaþjóðanna um að fara þess á leit við Evrópusambandið að reglur verði endurskoðaðar þannig að þeim aðildarríkjum sem vilja og geta verði heimilt að nota rafræna fylgiseðla í staðinn fyrir prentaða fylgiseðla eins og nú er gert. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sendi í sumar erindi þessa efnis til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins fyrir hönd allra heilbrigðisráðherra Norðurlandanna.


Tryggja þarf sjúklingum upplýsingar sem þeir skilja

Á fundinum í gær voru m.a. kynntar niðurstöður viðamikillar evrópskrar rannsóknar sem Evrópuráðið stóð fyrir að frumkvæði Íslands um kosti og galla þess að innleiða rafræna fylgiseðla. Í stuttu máli fela niðurstöðurnar í sér að lyfsalar, læknar og annað heilbrigðisstarfsfólk telur vandkvæðum bundið að tryggja að sjúklingar sem ekki hafa tungumál viðkomandi lands að móðurmáli fái fullnægjandi upplýsingar um þau lyf sem þeir þurfa á að halda. Núverandi fyrirkomulag tryggi því ekki sem skyldi rétta og örugga notkun sjúklinga á lyfjum. Um 88% svarenda telja að með rafrænum fylgiseðlum megi betur tryggja sjúklingum aðgengi að upplýsingum sem þeir geta skilið.


Margvíslegir kostir rafrænna fylgiseðla

Norðurlandaþjóðirnar horfa meðal annars til þess að ef heimilt verður að nota rafræna fylgiseðla í stað prentaðra muni það auðvelda þeim sameiginleg lyfjainnkaup þar sem markaðurinn verður stærri og þar með áhugaverðari kostur fyrir lyfjafyrirtækin. Með því megi sporna við lyfjaskorti, tryggja þannig betur öryggi sjúklinga, jafnframt því að ná hagstæðara innkaupaverði og lækka þar með lyfjaverð.


Með rafrænum fylgiseðlum er unnt að einfalda og bæta upplýsingagjöf til notenda. Þannig gætu sjúklingar fengið aðgang að fylgiseðlum (útprentuðum eða í snjalltækjum) á tungumáli sem hentar þeim og í leturstærð eftir þörfum.


Við núverandi aðstæður skapast vandamál ef breyta þarf fylgiseðlum, t.d. vegna nýrra upplýsinga um aukaverkanir sem mikilvægt er að koma til notenda. Þegar um slíkt er að ræða þarf að innkalla og umpakka eða farga þeim lyfjum sem búið er að dreifa í apótek. Með rafrænum fylgiseðlum er aftur á móti auðvelt að koma nýjum upplýsingum til notenda og innköllun pakkninga af þessum ástæðum óþörf.


„Ekki spurning um hvort, heldur hvenær“

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir innleiðingu rafrænna fylgiseðla hafa marga augljósa kosti og ef vel er að málum staðið séu þeir til þess fallnir að tryggja betur öryggi sjúklinga. „Lyfjamál eru flókinn málaflokkur og regluverkið er umfangsmikið enda snúast örugg lyf og rétt notkun þeirra um líf og heilsu fólks. En það er líka mikilvægt að regluverkið taki breytingum í samræmi við þróun samfélagsins, tækninýjungar og breyttar þarfir almennings. Í fjölmenningarsamfélögum nútímans og tæknivæddum heimi er ég sannfærð um að innleiðing rafrænna fylgiseðla sé eðlileg og nauðsynleg þróun. Spurningin er ekki hvort, heldur hvenær þetta verður að veruleika“ segir ráðherra.


Greinin birtist fyrst á heimasíðu Heilbrigðisráðuneytisins

Inn­leiðing ra­f­rænna fylgiseðla með lyfj­um myndi stór­breyta fram­boði lyfja á Íslandi. Markaðssvæðið á Íslandi myndi stækka til muna með inn­leiðingu ra­f­rænna lyf­seðla auk þess sem ís­lensk­ur lyfja­markaður yrði tölu­vert meira spenn­andi fyr­ir er­lend lyfja­fyr­ir­tæki. Þetta seg­ir Sig­ur­björg S. Guðmunds­dótt­ir lyfja­fræðing­ur.


Und­ir for­ystu Íslands náðist samstaða meðal Norður­landaþjóðanna um að fara þess á leit við Evr­ópu­sam­bandið að regl­ur verði end­ur­skoðaðar þannig að aðild­ar­ríkj­um verði heim­ilt að nota ra­f­ræna fylgiseðla með lyfj­um í stað prentaðra eins og nú er kraf­ist. Svandís Svavars­dótt­ir heil­brigðisráðherra sendi í sum­ar er­indi þess efn­is til fram­kvæmd­ar­stjórn­ar Evr­ópu­sam­bands­ins fyr­ir hönd allra heil­brigðisráðherra Norður­land­anna. 


Ísland aft­ar­lega á for­gangslista er­lendra lyfja­fyr­ir­tækja 

Sig­ur­björg hélt er­indi á blaðamanna­fundi heil­brigðisráðuneyt­is­ins um ra­f­ræna fylgiseðla í morg­un. 


Sig­ur­björg seg­ir kost­ina við ra­f­ræna fylgiseðla vera fjöl­marga og veiga­mikla. 

„Ég hef verið að vinna hjá lyfja­fyr­ir­tækj­um er­lend­is, bæði í Svíþjóð og Englandi og hef gert það núna í sjö ár. Þá sé ég svart á hvítu hvað Ísland er lít­ill markaður og að við séum aft­ast í for­gangi hjá lyfja­fyr­ir­tækj­um. Á sama tíma er mik­ill lyfja­skort­ur á Íslandi,“ seg­ir Sig­ur­björg í sam­tali við mbl.is. 

„Með hverj­um lyfjapakka sem er seld­ur þarf að vera fylgiseðill á ís­lensku. Ef að þetta er ekki til staðar er ekki hægt að selja lyf­in. Lyfja­fyr­ir­tæki hafa ekki mik­inn áhuga á að selja 3.000 pakka til Íslands þegar það er svona mikið umstang í kring­um það með fylgiseðla. Ef við vær­um með ra­f­ræna fylgiseðla gæti markaður­inn verið miklu stærri. Þá vær­um við ekki leng­ur bund­in við eitt markaðssvæði. Þetta myndi hafa gríðarlega mikla þýðingu fyr­ir lyfja­skort á Íslandi,“ seg­ir Sig­ur­björg. 


Myndi auka öryggi sjúklinga

Sig­ur­björg seg­ir nú­ver­andi fyr­ir­komu­lag ekki vera nægi­lega hag­nýtt fyr­ir ís­lensk­an lyfja­markað. 


„Norður­lönd­in eru með sam­ráð svo að á fylgiseðlum eru upp­lýs­ing­ar á fleiri tungu­mál­um. Þetta er mjög fal­leg hug­mynd til að stækka markaðssvæðið en það geng­ur ekki al­veg eins og það á að ganga því að all­ar nauðsyn­leg­ar upp­lýs­ing­ar á mörg­um tungu­mál­um kom­ast ekki alltaf fyr­ir á papp­ír. Þetta er ekki svo praktískt. 


„Þar fyr­ir utan erum við líka að fá kvart­an­ir frá fólki sem hrein­lega get­ur ekki lesið á prentaða fylgiseðla því letrið er svo smátt. Þá er fylgiseðill­inn ekki einu sinni að gegna því hlut­verki sem hann á að gegna,“ seg­ir Sig­ur­björg. 


„Svo að þetta er ekki ein­ung­is spurn­ing um að auka fram­boð á lyfj­um og stækka markaðssvæðið og gera Ísland að áhuga­verðum stað fyr­ir lyfja­fyr­ir­tæki, held­ur líka bara að auka ör­yggi sjúk­linga.“

Sig­ur­björg seg­ir marg­ar leiðir koma til greina hvað varðar út­færslu ra­f­ræna lyf­seðla. 


„Það yrði til dæm­is ekk­ert vanda­mál að nota strika­merki sem hægt er að skanna í sím­an­um og fá upp­lýs­ing­ar. Tækn­in er til staðar, þetta er bara spurn­ing um hvernig við ætl­um að nota hana.“


Aðrar þjóðir rólegri

Þá seg­ir Sig­ur­björg að ra­f­ræn­ir fylgiseðlar séu mun meira hags­muna­mál fyr­ir Íslend­inga en hinar Norður­landaþjóðirn­ar. 


„Ísland eig­in­lega hang­ir á bláþræði. Það er svo mik­ill lyfja­skort­ur hérna þannig að yf­ir­völd vilja finna leiðir til að breyta þessu sem allra fyrst. Önnur lönd eru frek­ar að glíma við önn­ur vanda­mál, eins og þegar fólk af er­lendu bergi brotið kaup­ir lyf og lyf­seðill­inn er kannski bara á sænsku. En af því að Ísland er komið í krí­tíska stöðu útaf lyfja­skorti er miklu meiri hvati hjá Íslandi til að breyta þessu. Á meðan eru aðrar þjóðir ró­legri.“


Sig­ur­björg seg­ist vera bjart­sýn á að ra­f­ræn­ir fylgiseðlar verði að veru­leika áður en langt um líður. Kost­irn­ir séu mun fleiri en gall­arn­ir. 


„Vand­kvæðin eru helst að sum­ir eru enn svo­lítið hrædd­ir við tækn­ina og síðan hvernig ná­kvæm­lega þetta yrði út­fært. Ann­ars er kost­irn­ir miklu fleiri en gall­arn­ir. Það er mjög raun­hæft að vinna úr þeim vand­kvæðum sem eru til staðar, þetta eru ekki nein­ar hindr­an­ir.“


Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu. 

181009+PharmaSýn+merki+CMYK-prent+(2)-0
Skráðu þig á póstlistann okkar

Takk fyrir að skrá þig!

© 2020 PharmaSýn

bottom of page