top of page
Search

Það eru eng­in ný sann­indi að geðheils­an skipt­ir meg­in­máli þegar kem­ur að vellíðan og hvernig við þríf­umst í um­hverfi okk­ar. Flest vit­um við hvernig við eig­um að hlúa að geðheils­unni en það er stund­um erfitt að finna tíma fyr­ir allt sem ger­ir okk­ur gott. Miklu máli skipt­ir að finna sér at­hafn­ir sem næra og draga úr streitu og álagi. Það eru oft ein­földu hlut­irn­ir sem kosta ekk­ert og eru næst okk­ur sem færa okk­ur hug­ar­ró og and­lega nær­ingu.En streita, álag, kvíði og þung­lyndi hafa marg­ar birt­ing­ar­mynd­ir.


Rann­sókn­ir sýna að ríf­lega þriðjung­ur þeirra sem leita til heilsu­gæsl­unn­ar á fyrst og fremst við geðheilsu­vanda að stríða.

Vert er að muna að mörg lík­am­leg ein­kenni geta stafað af and­legri van­líðan eða streitu ein­göngu. Má þar nefna hjart­slátt­ar­trufl­an­ir, höfuðverk, melt­ingarónot og aðra al­genga verki. Er þá gjarn­an talað um sállík­am­leg ein­kenni, sem eru býsna al­geng.

Hvert á að leita?

En þegar við þurf­um að leita til heil­brigðisþjón­ust­unn­ar vegna and­legr­ar van­líðanar er kannski ekki aug­ljóst hvar hjálp er að fá. Þá er gott að leita til heilsu­gæsl­unn­ar sem grein­ir og veit­ir viðeig­andi þjón­ustu eða vís­ar áfram ef þörf er á.

Hér eru út­skýrð í stór­um drátt­um hin ólíku þjón­ustu­stig og hvert leita megi inn­an heilsu­gæsl­unn­ar.

Þjón­ustu­stig­in þrjú

Heil­brigðisþjón­ust­an á Íslandi er oft skil­greind með eft­ir­far­andi hætti:

  1. stigs þjón­usta: Heilsu­vernd, fyrsta grein­ing og meðferð heilsu­far­svanda, al­menn þjón­usta.

  2. stigs þjón­usta: Sér­hæfðari þjón­usta án inn­lagn­ar á sjúkra­hús.

  3. stigs þjón­usta: Meðferð og aðhlynn­ing á sjúkra­hús­um.

Þjón­ustu­stig­in vinna sam­an að vel­ferð ein­stak­lings­ins þar sem metið er hvaða meðferðar er þörf hverju sinni.

1. stigs þjón­usta: Heilsu­gæsl­an

Heilsu­gæsl­an ætti að jafnaði að vera fyrsti viðkomu­staður­inn í upp­hafi hvers heilsu­vanda.

Upp­lýs­ing­ar um þjón­ustu heilsu­gæslu­stöðvanna má auðveld­lega fá:


  • Í þjón­ustu­vef­sjá á Heilsu­vera.is

  • Á vef Heilsu­gæslu höfuðborg­ar­svæðis­ins. heilsugaesl­an.is

  • Með sím­tali við heilsu­gæslu­stöðina þína.

  • Í vakt­sím­an­um 1700 sem er op­inn all­an sól­ar­hring­inn.

  • Með viðtali við hjúkr­un­ar­fræðing sam­dæg­urs, sem met­ur vanda og veit­ir fræðslu.

  • Á síðdeg­is­vakt stöðvar­inn­ar.

  • Í bókuðum tíma hjá þínum heim­il­is­lækni.


Fag­fólk heilsu­gæsl­unn­ar hef­ur þekk­ingu og reynslu til að greina and­lega van­líðan og meðhöndla al­geng­ustu geðrask­an­ir, eins og kvíða og þung­lyndi. Sál­fræðiþjón­usta er í boði á öll­um heilsu­gæslu­stöðvum.

Heim­il­is­lækn­ar og annað fag­fólk á heilsu­gæslu­stöðvum get­ur vísað ein­stak­ling­um til starf­andi sál­fræðinga á heilsu­gæslu­stöðvum, svo og í önn­ur viðeig­andi meðferðarúr­ræði, eins og til sér­fræðinga á stof­um eða geðheilsu­teymi HH.

2. stigs þjón­usta: Sér­hæfðari þjón­usta án inn­lagn­ar á sjúkra­hús

Heilsu­gæsl­an nær að mæta þörf­um meiri­hluta ein­stak­linga með geðrask­an­ir. Þar sem frek­ari aðstoðar er þörf kem­ur til þjón­ustu geðheilsu­teyma.

Geðheilsu­teymi HH eru nýj­ung og sinna 2. stigs þjón­ustu. Ekki er hægt að leita beint til þeirra án til­vís­un­ar, sem get­ur komið frá fag­fólki, bæði frá 1. og 3. stigs heil­brigðisþjón­ustu. Einnig get­ur fag­fólk fé­lagsþjón­ustu sent til­vís­an­ir.

Þegar geðheils­an bregst býður heilsu­gæsl­an þannig upp á fjöl­mörg úrræði. Vel­kom­in í heilsu­gæsl­una – hér fyr­ir þig!


Grein er fengin frá heimasíðu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og birtist fyrst í Morgunblaðinu.

Bólusetning gegn inflúensu er nú fáanleg á öllum heilsugæslustöðvum. Bólusetningin veitir vörn í allt að sex mánuði, því getur verið gott að bíða fram í október með bólusetningu svo hún virki lengur. Boðið er upp á inflúensubólusetningar á heilsugæslustöðvunum frá kl 8.00 – 15.00 alla virka daga.


Hvað er inflúensa, hver eru einkennin og hvenær kemur hún?

Inflúensa er veirusýking sem einkennist af háum hita, þurrum hósta, höfuðverk, beinverkjum, oft með hálssærindum og nefrennsli. Einkennin koma snögglega. Árviss faraldur af völdum inflúensu A og oftast einnig af völdum inflúensu B hefst oft í desember eða janúar, en stöku tilfelli greinast stundum fyrr. Gera verður ráð fyrir að upphaf inflúensufaraldurs geti verið allt frá október til mars. Yfirleitt tekur 2–3 mánuði fyrir faraldur að ganga yfir.


Er inflúensan hættuleg? 

Hætta á alvarlegum fylgikvillum inflúensu er mest meðal aldraðra og fólks með bælt ónæmiskerfi, en inflúensan leiðir á hverju ári til dauðsfalla meðal eldri borgara. 

Hverjum er einkum ráðlagt að láta bólusetja sig?

  • Öllum sem orðnir eru 60 ára

  • Öllum, bæði börnum og fullorðnum, sem þjást af langvinnum hjarta-, lungna-, nýrna- og lifrarsjúkdómum, sykursýki, illkynja sjúkdómum og öðrum ónæmisbælandi sjúkdómum.

  • Heilbrigðisstarfsmönnum sem daglega annast fólk með aukna áhættu, sbr. ofantalið.

  • Þunguðum konum

Þeir sem tilheyra ofangreindum hópum fá bóluefnið sér að kostnaðarlausu en greiða þó komugjald samkvæmt reglugerð nr. 225 / 2018.

Hversu mikil vörn er í bólusetningu?

Búast má við að bólusetning geti veitt a.m.k. 60-70% vörn gegn sjúkdómnum auk þess sem hann verður vægari hjá þeim í hópi bólusettra sem veikjast. Sóttvarnalæknir leggur áherslu á að sem flestir verði bólusettir, ekki síst þeir sem tilheyra forgangshópum.

Bent skal á að vel má láta bólusetja sig þó svo að inflúensufaraldur sé hafinn því einungis tekur um 1-2 vikur að mynda verndandi mótefni eftir bólusetningu. Ef þú þarft að fá ráðleggingar, hafðu þá samband við heilsugæslustöðina þína.


Bólusetning við lungnabólgu

Jafnframt er minnt á að þeir sem á þurfa að halda geta í leiðinni fengið bólusetningu við lungnabólgu (pneumókokkasýkingu). Fá má nánari upplýsingar á heilsuvera.is

Gjald fyrir lungnabólgubólusetningu er samkvæmt reglugerð.


Greining er fengin af heimasíðu Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins.

Embætti landlæknis fylgist með faraldri alvarlegra lungnasjúkdóma í Bandaríkjunum og sem virðist tengdur notkun á rafrettum og tengdum vörum. Samkvæmt nýjustu upplýsingum frá heilbrigðisyfirvöldum í Bandaríkjunum hafa rúmlega 450 manns veikst. Fimm dauðsföll sem rekja má til sjúkdómsins hafa verið staðfest í jafn mörgum ríkjum.


Samkvæmt nýjustu upplýsingum frá Miðstöð sjúkdómavarna og forvarna í Bandaríkjunum (CDC) er ekkert sem gefur til kynna á þessari stundu að um smitsjúkdóm sé að ræða. Þannig eru lungnaveikindin rakin til váhrifa af efnafræðilegum toga.


Flestir sjúklinga lýsa einkennum sem dæmigerð eru fyrir veikindi í öndunarfærum, svo sem hósta, mæði og verk fyrir brjósti. Aðrir hafa jafnframt fundið fyrir einkennum í meltingarvegi, líkt og ógleði, uppköstum og niðurgangi. Önnur einkenni á borð við þreytu, hita og þyngdartap hafa jafnframt verið algeng meðal þeirra sem veikst hafa.


Allir þeir sem hafa veikst hafa notað rafrettur. Enn er ekki vitað hvort að veikindin tengjast tilteknum rafrettum eða efnum sem notuð eru í þær. Hins vegar eru vísbendingar um að stór hluti þeirra sem veikst hafa hafi notað rafrettu-vökva sem innihélt vímuefnið THC (tetrahydrocannabinol) eða CBD (cannabidiol) en svo virðist sem að veikindin séu ekki einungis bundin við það.


Vel er fylgst með málinu á lungnadeild Landspítala en þar eru sjúklingar spurðir sérstaklega út í notkun á rafrettum. Enn sem komið er hefur ekkert tilfelli af sama toga og í Bandaríkjunum verið tilkynnt hér á landi.


Embætti landlæknis minnir á að börn og ungmenni sem og barnshafandi konur eigi aldrei að nota rafrettur og tengdar vörur. Það er áhyggjuefni að notkun á rafrettum hefur mjög færst í vöxt meðal íslenskra ungmenna síðustu árin. Umræðunni um rafrettur á að skipta í tvennt, annarsvegar sem leið til að aðstoða fólk við að hætta að reykja og hinsvegar að börn og ungmenni sem ekki hafa reykt nota rafrettur í síauknum mæli. Þessi aukna notkun ungmenna veldur áhyggjum þar sem ekki er vitað um áhrif hennar á heilsu til lengri tíma og hvort hún muni leiða til annarrar tóbaksnotkunar. Í nýlegum rannsóknum hafa komið fram vísbendingar um að þeir sem nota rafrettur eru líklegri en aðrir til að byrja að nota tóbak. Því er mikil þörf á rannsóknum á langtíma áhrifum rafretta, bæði hvað varðar bein áhrif á heilsu fólks og möguleg tengsl þeirra við tóbaksnotkun.


Þegar rafrettur komu fyrst á markað þóttu þær jákvæður valkostur fyrir þá sem vildu venja sig af sígarettureykingum og eiga að vera skárri en hefðbundnar tóbaksreykingar. Þeir sem nota rafrettur eru hvattir til að kaupa tæki og efni einungis af viðurkenndum söluaðilum. Landlæknir hvetur þá sem nota rafrettur og finna fyrir einkennum eins og tilgreind eru hér að ofan, til að leita sér læknisaðstoðar. Jafnframt eru læknar hvattir til að vera upplýstir um þessi einkenni og að fá upplýsingar um rafrettu-notkun sjúklinga hafi þeir einkenni sem lýst var hér að ofan.

Lög um rafrettur tóku gildi  1. mars síðastliðinn. Markmið þeirra er að tryggja gæði og öryggi rafrettna og áfyllinga fyrir þær. Neytendastofa fer með markaðseftirlit með rafrettum og áfyllingum. Heildaráhrif laga um rafrettur eru ekki enn komin fram, en landlæknir mun fylgjast náið með áhrifum þeirra.


Nánar má lesa um lög um rafrettur hér.

Lista Neytendastofu um samþykktar rafrettur og áfyllingar er að finna hér.

Ítarlegri upplýsingar faraldurinn í Bandaríkjunum má finna á vefsíðu FDA og CDC.

Grein bandarískra vísindamanna um faraldurinn í New England Journal of Medicine má nálgast hér.


Greinin er fengin frá heimasíðu Embætti Landlæknis.

181009+PharmaSýn+merki+CMYK-prent+(2)-0
Skráðu þig á póstlistann okkar

Takk fyrir að skrá þig!

© 2020 PharmaSýn

bottom of page