top of page
Search

Kröfur samfélagsins um aukna nýtingu upplýsingatækni innan heilbrigðisþjónustu og stjórnsýslunnar almennt, verða sífellt meiri, en almennt er viðurkennt að aukin nýting upplýsingatækni innan heilbrigðisþjónustu auki öryggi sjúklinga, skilvirkni og gæði þjónustunnar.


Almenn þróun undanfarin ár hefur verið sú að notendur heilbrigðisþjónustu séu í auknum mæli upplýstir og virkir þáttakendur í eigin meðferð. Lög um sjúkraskrár nr. 55/2009 styðja það, en þau kveða á um rétt einstaklinga til aðgangs að eigin sjúkraskrárupplýsingum. Því er mikilvægt að stuðla að greiðu og öruggu rafrænu aðgengi einstaklinga að eigin heilbrigðisupplýsingum.


Embætti landlæknis ber ábyrgð á þróun og innleiðingu upplýsingatækni í heilbrigðisþjónustu á landsvísu og hefur nú, í samvinnu við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og hugbúnaðarfyrirtækið TM Software, þróað heilbrigðisgáttina Heilsuvera. 


Tilgangurinn með Heilsuveru var að þróa öruggan rafrænan aðgang fyrir einstaklinga að eigin heilbrigðisupplýsingum, hvar og hvenær sem þörf væri á og óháð því á hvaða heilbrigðisstofnun, heilsugæslustöð eða starfsstofu sérfræðings upplýsingarnar væru skráðar.


Markmið

Með Heilsuveru er leitast við að auka aðgengi almennings að upplýsingum um sín mál innan heilbrigðisþjónustunnar. Helstu markmiðin með þróun Heilsuveru eru að:


  • Veita almenningi rafrænan og öruggan aðgang að eigin heilbrigðisupplýsingum.

  • Stuðla að auknu öryggi sjúklinga með því að veita aðgang að eigin heilbrigðisupplýsingum, s.s. lyfjaupplýsingum og upplýsingum um ofnæmi.

  • Auka þjónustu við almenning í heilbrigðiskerfinu þannig að einstaklingar geti nálgast eigin heilbrigðisupplýsingar án tafar, hvar og hvenær sem er, óháð því á hvaða heilbrigðisstofnun, heilsugæslustöð eða starfsstofu sérfræðings upplýsingarnar voru skráðar.

  • Gera einstaklinum kleift að eiga í öruggum rafrænum samskiptum við lækna, hjúkrunarfræðinga og aðra heilbrigðisstarfsmenn.

  • Hafa rafrænt eftirlit með áhættuhópum þar sem einstaklingar skrá eigin mælingar og fá fræðslu og ráðgjöf.


Heilsuvera gerir einstaklingum kleift að hafa betri yfirsýn yfir samskipti sín við heilbrigðisþjónustuna, en við það skapast tækifæri til aukinnar þátttöku í eigin meðferð.

Með aðgangi að Heilsuveru geta einstaklingar nú fengið yfirsýn yfir lyfjanotkun sína, sótt rafrænt um endurnýjun lyfseðla, séð stöðu lyfseðla í lyfseðlagátt, séð ofnæmi sem hefur verið skráð í sjúkraskrá, séð framkvæmdar bólusetningar, átt örugg rafræn samskipti við heilbrigðisstarfsmenn og bókað tíma rafrænt á heilsugæslustöð. Auk þess er hægt að fá aðgang að upplýsingum eigin barna að 16. ára aldri, en aldurstakmarki var breytt úr 15. ára í 16. ára aldur í febrúar 2017.


Embætti landlæknis mun halda áfram að þróa Heilsuveru og munu einstaklingar smám saman fá aukinn aðgang að eigin heilbrigðisupplýsingum með hjálp Heilsuveru.


Má t.d. nefna aðgang að upplýsingum um legur á sjúkrahúsi, heimsóknir á heilsugæslustöð, helstu greiningar og meðferðir, rannsóknaniðurstöður, hverjir hafa flett upp í sjúkraskrá einstaklingsins og möguleika á eigin skráningu einstaklinga í sjúkraskrá (t.d. ýmis vítamín og önnur lyf en þau sem eru lyfseðilsskyld).


Aðgangur að Heilsuveru

Til þess að fá aðgang að eigin heilbrigðisupplýsingum í Heilsuveru þarf rafræn skilríki. Rafræn skilríki eru bæði fáanleg á snjallkortum og í farsímum. Nánari upplýsingar er að finna á síðunni Rafræn skilríki.

Til að skrá sig inn í Heilsuveru ferð þú inn á www.heilsuvera.is

Til þess að fá aðgang að rafrænum tímabókunum á heilsugæslustöð og endurnýjun lyfjaseðla þarf að vera skráður á heilsugæslustöðina.


Greinin er fengin frá heimasíðu Embætti Landlæknis

Nú þegar styttist í veturinn og skólar hefjast fara margir að huga að því að koma reglu á heimilislífið eftir sumarleyfi og ferðalög. Það hendir flesta að slaka á svefntímanum yfir bjartasta árstímann á Íslandi. Mörgum finnst tímanum illa varið í svefn og vilja nota sem stærstan hluta sólarhringsins til að njóta lífsins. Á góðæristímum eins og nú fara í hönd hefur fólk líka tilhneigingu til að sofa minna en á samdráttartímum. Til að mynda svaf tæplega einn af hverjum þremur fullorðnum Íslendingum að jafnaði sex klukkustundir eða minna á nóttu á síðastliðnum árum, skv. upplýsingum frá Embætti landlæknis.


Nægur svefn er vernd gegn þunglyndi

Það kemur sífellt betur í ljós hversu mikilvægt er að tryggja sér nægilega langan og góðan nætursvefn. Það kemur ekki aðeins fram í betri einbeitingu að deginum heldur betra heilsufari til lengri tíma. Sofi fullorðinn einstaklingur að jafnaði 7-8 klst nætursvefni eru minni líkur á að hann fái hjartasjúkdóma, sykursýki, háþrýsting, krabbamein eða alzheimer-sjúkdóm síðar á lífsleiðinni. Hann hefur sterkara ónæmiskerfi og nægur svefn verndar einstaklinginn líka fyrir þunglyndi. Dagsyfja vegna ónógs svefns veldur ekki einungis einbeitingarskorti heldur getur hún valdið því að fólk borðar meira og þyngist. í þessu samhengi má líka benda á að ein algengasta orsök umferðarslysa er að ökumenn sofna undir stýri.


Fyrir börn og unglinga er enn mikilvægara að þau fái nægan svefn þar sem líkaminn framleiðir vaxtarhormón að mestu á meðan þau sofa. Þessi hormón stýra vexti þeirra og þroska. Börn þurfa á mislangri hvíld að halda eftir aldri:Yngstu börnin þurfa allt að 10-12 klukkustunda nætursvefn, skólabörn á aldrinum 6-12 ára þurfa að minnsta kosti 10 klukkutíma svefn og unglingar þurfa oftast að sofa 8-10 klukkutíma nætursvefni.


Svefnlyf trufla mynstrið

Til að tryggja sér góða hvíld er mikilvægt að venja sig á góðar svefnvenjur. Flestir sofa betur í dimmu og svölu herbergi. Líkamsrækt og öll hreyfing stuðlar að betri svefni þótt ekki sé gott að vera i ræktinni seint að kvöldi.


Birtan af snjalltækjum, tölvum og sjónvarpi getur truflað svefn og ætti að slökkva á þeim 1-2 klukkustundum fyrir háttatíma. Koffínneysla seinni hluta dags getur truflað svefn og áfengisneysla veldur lakari svefni.


Þrátt fyrir að svefnleysi þjaki fólk tímabundið er sjaldan ráðlegt að nota svefnlyf nema í mjög skamman tíma. Svefnlyf eiga það sameiginlegt að þau trufla svefnmynstrið. Þau verða fljótt gagnslaus og geta orðið skaðleg. Neysla áfengis til að vinna á svefnleysi gerir meiri skaða en gagn.


Leitað að orsökum svefntruflana

Ef einstaklingur telur sig glíma við óeðlilegar eða langvinnar svefntruflanir er nauðsynlegt að leita betur eftir undirliggjandi orsökum. Þær geta verið margvíslegar: Áhyggjur, álag, verkir, aukaverkanir lyfja, sjúkdómar svo sem kæfisvefn og fótaóeirð svo fátt sé nefnt. Sjálfsagt er að ræða slík einkenni við heilbrigðisstarfsfólk á heilsugæslunni og fá ráðleggingar.

Fyrst og fremst hvetjum við alla til að huga að því að tryggja sér góðan nætursvefn. Við hvetjum alla til að koma sér saman um kvöldvenjur sem miða að því að hvílast vel alla daga vikunnar en geymi það ekki til helganna.


Fyrir frekari upplýsingar og góð ráð fyrir svefninn bendum við á pistla um svefn og hvíld á vefnum heilsuvera.is.


Nanna Sigríður Kristinsdóttir svæðisstjóri og fagstjóri lækninga, Heilsugæslunni Efra Breiðholti


Grein er fengin frá heimasíðu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og birtist fyrst í Morgunblaðinu.

Lyfjum skal skila í apótek

Afar mikilvægt er að afgangslyfjum sé skilað í apótek til eyðingar, en ekki hent í ruslið eða skolað niður í vask eða klósett. Þannig geta þau haft skaðleg áhrif á lífríki og vistkerfi. Hætturnar sem fylgja því að eiga lyf heima sem ekki er þörf fyrir eru fleiri. Börn eða gæludýr gætu komist í lyfin fyrir slysni, þau gætu lent í röngum höndum og svo mætti lengi telja. Öruggast er að fara með þau lyf sem ekki er not fyrir til eyðingar í næsta apótek. 


Glærir pokar - öryggi starfsfólks

Þess er óskað að lyfjum sé skilað í glærum pokum. Þetta er gert með öryggi starfsfólks apóteka í huga, sem ætti þar með auðveldara með að sjá hvort óæskilegir hlutir hafi slæðst með í pokanna, t.d. sprautunálar. Sprautunálum á að skila í lokuðum umbúðum. Slíkar umbúðir er hægt að fá í apótekum. 


Hverjir handleika lyf sem er skilað til apóteka?

Tekið er á móti lyfjum sem ekki er lengur þörf fyrir hjá öllum apótekum á landinu, einstaklingum að kostnaðarlausu, í samræmi við reglugerð um lyfjaávísanir og afhendingu lyfja. Þar er ekki gert ráð fyrir að lyf sem skilað er til apóteka séu skráð. Slík skráning væri í mörgum tilvikum óframkvæmanleg, t.d. þegar skilað er umbúðalausum töflum í poka sem ekki er vitað hvers eðlis eru. Í öðrum tilfellum væri skráningin tilgangslaus nema ef talið væri á móti til tryggingar því að réttu magni hafi verið fargað.


Starfsfólki apóteka er treyst til að afgreiða lyf, að umgangast þau rétt í apótekinu, og hið sama gildir einnig hvað varðar móttöku lyfja sem er skilað til eyðingar. Ekki er skylda að kalla eftir sakavottorði þegar starfsmaður er ráðinn í apótek en margir lyfsöluleyfishafar gera slíkt engu að síður. Varðandi ytra öryggi þá er skylt að hafa öryggiskerfi og þjófavörn í apótekum. Líkt og fram kom í þætti Kveiks á RÚV 2. apríl, hefur Lyfjastofnun ekki ástæðu til að ætla að verklag í apótekum sé ekki samkvæmt lögum og reglum. Mikilvægt er að tilkynna til Lyfjastofnunar ef viðskiptavinir apóteka verða varir við verklag í apótekum sem þeir telja að brjóti í bága við lög og reglur. Stofnunin rannsakar þá málið og fylgir því eftir ef ástæða er til. 


Eftirlit með starfsemi apóteka

Í apótekum er innra eftirlit m.a. með hitastigi í lyfjageymslum og móttöku lyfja frá viðskiptavinum til eyðingar. Lyfsöluleyfishafi sinnir því eftirliti og ber ábyrgð á farið sé að reglum og tilmælum. Lyfjastofnun kemur reglulega í eftirlitsferðir í apótek þar sem hlutirnir eru skoðaðir á staðnum og auk þess eru lögð fram gögn sem sýna fram á innri eftirlit apóteksins.


Fyrirtækin sem heimild hafa til að annast flutning og förgun

Þrjú fyrirtæki hafa leyfi Umhverfisstofnunar til að taka á móti lyfjum til eyðingar: Efnarás (áður Hringrás), Efnamóttakan Hafnarfirði og Íslenska gámafélagið. Þau sjá um að koma lyfjunum til fyrirtækisins Kölku á Suðurnesjum, en það er eina fyrirtækið sem hefur heimild Umhverfisstofnunar til eyðingar lyfja. Starfsmennn þess fyrirtækis sem sjá um móttöku og flutning lyfjanna fylgjast síðan með að þau skili sér í brennsluofn Kölku. 


Ekki hægt að selja aftur lyf sem skilað er í apótek

Lyf sem hafa farið út úr apóteki er ekki hægt að selja aftur. Slíkt gildir jafnvel þótt pakkningar lyfsins séu órofnar. Þetta gæti hljómað sem óþarfa sóun en snýst einfaldlega um þær ríku gæðakröfur sem gerðar eru til lyfja; strangt eftirlit allt frá hráefni í gegnum framleiðsluferli og alla dreifingu, þar til lyfið skilar sér loks til neytandans. Slíkar kröfur eru nauðsynlegar þar sem um afar viðkvæma vöru er að ræða og mikilvægt er að virkni lyfsins haldist þar til þess er neytt. Lyf þarf t.d. að geyma við ákveðin skilyrði, svo sem rétt hitastig fyrir hvert þeirra. Í öllum apótekum er fylgst nákvæmlega með hitastigi í lyfjageymslum til að tryggja að lyfin séu geymd við rétt hitastig. Ljóst er að hvorki starfsfólk apóteka né framleiðendur geta tryggt að lyfið virki sem skyldi ef það hefur farið út úr apótekinu. 


Grein er fengin frá Lyfjastofnun.

181009+PharmaSýn+merki+CMYK-prent+(2)-0
Skráðu þig á póstlistann okkar

Takk fyrir að skrá þig!

© 2020 PharmaSýn

bottom of page