Bólusetning - afhverju og fyrir hverja?
- PharmaSýn
- Sep 16, 2019
- 1 min read
Bóluefni gegn árlegri inflúensu er nú komið til landsins og verður tilbúið til afhendingar hjá Parlogis ehf. frá og með 16.9.2019.
Í ár, eins og fyrri ár, verður notað bóluefnið Influvac sem inniheldur vörn gegn inflúensu A(H1N1), A(H3N2) og inflúensu B.
Sóttvarnalæknir mælist til að eftirtaldir áhættuhópar njóti forgangs við inflúensubólusetningu:
Allir einstaklingar 60 ára og eldri.
Öll börn og fullorðnir sem þjást af langvinnum hjarta-, lungna-, nýrna- og lifrarsjúkdómum, sykursýki, illkynja sjúkdómum og öðrum ónæmisbælandi sjúkdómum.
Heilbrigðisstarfsmenn sem annast einstaklinga í áhættuhópum sem taldir eru upp hér að ofan.
Þungaðar konur.
Vakin er athygli á því að ofangreindir áhættuhópar eiga rétt á bóluefninu sér að kostnaðarlausu.
Um 70.000 skammtar af bóluefninu eru tilbúnir til afhendingar sem er svipað magn og var til ráðstöfunar á síðasta vetri. Dreifing bóluefnisins er ákvörðuð af sóttvarnalækni og miðast við dreifingu vetrarins 2018/2019 þar sem áhersla var lögð á bólusetningu áhættuhópa.
Almenn bólusetning er í höndum heilsugæslunnar en auk þess er bólusett á sjúkrastofnunum og ýmis fyrirtæki og læknar hafa tekið að sér bólusetningu almennings og starfsmanna.
Þessir aðilar munu á næstunni auglýsa hvernig bólusetningunni verður háttað en yfirleitt er byrjað að bólusetja í október.
Eins og undanfarin ár er ekki nákvæmlega vitað á þessari stundu hvaða tegund inflúensu mun herja á landsmenn veturinn 2019 til 2020. Inflúensan er enn ekki farin að láta á sér kræla hér á landi en ávallt má búast við henni í kringum áramótin.
Bólusetning gegn inflúensu veitir yfirleitt allt að 60–70% vörn gegn sjúkdómnum en jafnvel þótt bólusettur einstaklingur fái inflúensu eru allar líkur á því að sjúkdómurinn verði vægari en ef hann væri óbólusettur.
Greinin er fengin frá heimasíðu Embætti Landlæknis
留言